Óttarsstaðir

Árin 1882 – 1887 bjó á Óttarsstöðum Jakob, sem kallaður var makalausi, með konu að nafni Margrét. Bústofn þeirra var ekki stór, en Jakob heyjaði vel á sumrin og fé hans var alltaf vænt. Jakob stundaði líka silungsveiði í vötnunum og veiddi rjúpur að vetrinum. Síðasta veturinn þeirra á Óttarsstöðum voru mikil harðindi og fannfergi. Um vorið þegar tíðin var farin heldur að skána var unglingspiltur, Eiríkur að nafni, sendur úr Þistilfirði vestur í Hrauntanga með bréf.

Þar sem ekkert hafði frést af Jakobi í margar vikur var Eiríkur beðinn að koma við á Óttarsstöðum og athuga hvernig heimilisfólki þar liði. Þegar hann kom að bænum sást aðeins í mæni bæjarhúsanna upp úr snjónum, engin merki voru um mannaferðir kringum húsin og engan reyk lagði úr eldhússtrompinum. Eiríki varð ekki um sel og taldi að þarna gæti enginn verið með lífsmarki. Hann fór þó heim að kotinu, sá að baðstofuglugginn var snjólaus og kallaði inn um hann hvort nokkur væri lifandi þarna inni. Honum var þegar heilsað glaðlega og beðinn að koma á eldhússtrompinn.

Hann renndi sér svo niður um strompinn og var vel tekið af húsráðendum. Áður en Eiríkur hélt áfram för sinni bað Jakob hann að gera sér greiða og hjálpa sér að slátra einni kind. Innangengt var í fjárhúsið en þar inni var orðið heldur tómlegt, aðeins tvö hross og þrjár ær, komnar nærri burði. Hafði Jakob þurft að slátra ánum, einni af annari, um veturinn sér til matar. Nokkrum dögum seinna fluttist Jakob alfarinn, burt frá Óttarsstöðum, niður í byggð.

Þrátt fyrir þennan nöturlega endi á búskapnum minntist Jakob áranna í heiðinni alltaf með mikilli ánægju. ,,Þar er fæðið kjarngott og svo þetta makalausa næði,” var þá gjarnan viðkvæðið.