Langanes

Langanes

Kauptúnið Þórshöfn stendur við austanverðan Lónafjörð. Þaðan er mikið og fagurt útsýni að sjá yfir Þistilfjarðarflóann, sveitirnar , heiðalöndin, Þistilfjarðarfjöllin,Langanesfjöllin og opið Norðuríshafið. Þar er veðursæld mun meiri en á útnesinu..

Á Þórshöfn er glæsilegt íþróttahús og sundlaug.

Á leiðinni út á Langanes (7 km.frá Þórshöfn)er kirkjustaðurinn Sauðanes.

Á Sauðanesi er ekki prestssetur lengur, en búið er að gera upp gamla prestshúsið. Það var byggt úr tilhöggvnum grásteini árið 1879 og telst til merkustu húsa á landinu. Endurbyggingu þess lauk árið 2003.

Þar er nú safn, upplýsingamiðstöð og kaffisala.

Á Langanesi er fjöldi eyðibýla, mikill reki, fjölskrúðugt fuglalíf, stórkostleg björg og óspillt náttúran svo fátt eitt sé nefnt. Nú er nesið orðið mjög aðgengilegt fyrir ferðamenn.

Útsýnispallur  á Skoruvíkurbjargi

Á Skoruvíkurbjargi er kominn einstakur útsýnispallurinn Járnkarlinn sem er kannski ekki fyrir lofthrædda en gefur einstakan möguleika á að sjá bjargfuglana á Stóra Karli.

Langanesfontur
Oftast kallaður Fontur í daglegu tali, er ysti hluti Langaness. Þar er allhátt bjarg, 50-70 m y.s. Á því stendur viti, fyrst reistur 1910, en núverandi viti er frá 1950. Við Font hafa orðið meiriháttar sjóslys, hið síðasta að hausti 1907. Þá fórst þar norskt skip,sem var að koma frá Jan Mayen með 17 manna áhöfn. Að skipinu hafði komið leki nokkru eftir að það fór frá Jan Mayen svo ákveðið var að leita hafnar á Íslandi. Ekki tókst betur til en svo að skipið strandaði yst við Langanes. Allir mennirnir fórust nema einn. Hann komst upp undir bjargið, hélst þar við í skúta um nóttina en gat klifrað upp á bjargbrún daginn eftir. Þótti það einstakt þrekvirki. Flest líkin fundust rekin undir bjarginu og voru þau dregin í festi upp á bjargbrún. Að því búnu voru þau flutt í Sauðanes og jörðuð þar í einni gröf. Norðan í bjarginu og stutt frá vitanum er rauf í bergið sem kölluð er Engelskagjá. Sagt er að áhöfn af ensku skipi, sem strandaði endur fyrir löngu undir Fontinum, hafi komist í land og klöngrast upp gjána. Af því dregur hún nafn. En á leiðinni til bæja urðu allir mennirnir úti, örmögnuðust af vosbúð og þreytu nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur enn kross milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem talið er að lík mannanna hafi fundist. Eru þau þar grafin. En á krossinum stendur:” Hér hvíla 11 enskir menn “. Yst á Langanesfonti hafa fundist 21 tegund háplantna

Skálar
Skálar er eyðiþorp á austanverðu Langanesi. Þar var löggiltur verslunarstaður 1895 og hét sá Þorsteinn Jónsson er þar hóf að versla og gera út. Þar var kominn vísir að kauptúni og töluvert útræði á fyrri hluta 20.aldar.Árið 1910 hófst útgerð fyrir alvöru með hafnarbótum ,byggingu verbúða, frystihúss( eitt af fyrstu vélfrystihúsum landsins), saltverkunarhúss og bræðslu auk verslunarhúsa. Voru 117 manns heimilisfastir þar 1924 auk lausafólks. Leituðu menn þangað úr ýmsum landshlutum til sjóróðra og jafnvel frá Færeyjum. Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var.Upp úr 1930 hófust fólksflutningar að marki frá Skálum og veturinn 1943 var þar enginn ábúandi lengur.Um sumarið það ár kom svo hópur bandarískra hermanna sem dvöldu þar til stríðsloka. Flestar minjar verstöðvarinnar á Skálum eru nú horfnar nema helst húsgrunnar og gamall grafreitur. Sunnan við Skála er Skálabjarg, fuglabjarg , rúmlega 130 m hátt .
Ágætis vegur er komin út í Skála og einnig útá Font.
Mörg eyðibýli eru á Langanesi öll með minjum um forna byggð og búskaparhætti.

Sjáið einnig fróðleik um Langanes hér.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af Langanesi.

Langanes

Langanes

Langanes

Langanes

Langanes