Lækjamót

Vorið 1865 flytja að Lækjamóti hjón, Friðrik og Margrét að nafni, með 17 ára gamla vinnustúlku, Guðrúnu, með sér. Bústofn þeirra var 9 fullorðnar ær og 2 veturgamlar allar með lömbum og 4 sauðir. Fljótlega eftir að þau fluttu í heiðina vaknaði grunur um að ekki væri þar allt með felldu. Þótti mönnum athygli vert hversu mikið af ull, tólg og prjónlesi Friðrik gat lagt inn í verslunina á Raufarhöfn, með ekki fleiri kindur.

Ekki þótti þó nein ástæða til aðgerða að svo stöddu. Þau Friðrik og Margrét umgengust fáa en fóru þó gjarnan til kirkju að Svalbarði yfir sumartímann. Í einni slíkri ferð sumarið 1867 varð á vegi þeirra ær frá Brekknakoti sem sloppið hafði úr kvíum og var komin upp í fjallgarðinn. Þau stálu ánni og fóru með hana heim en í stað þess að slátra henni strax vildi Margrét hafa hana í kvíum um sumarið, enda var þetta góð mjólkurær. Til þess að minnka líkur á að upp um þau kæmist hornskelltu þau ána og mörkuðu hana upp. Um haustið í göngunum sá stjúpsonur bóndans á Brekknakoti ána, sem bar nafnið Brúða, í kvíaám Friðriks og þekkti hana þrátt fyrir útlitsbreytingarnar. Hann treysti sér þó ekki til að krefjast hennar en fór heim við svo búið og sagði frá því hvers hann hefði orðið vísari.

Í framhaldi af því var gerð þjófaleit á Lækjamóti um haustið en þá brá svo við að ærin umtalaða sem athuga átti hverjum tilheyrði var alveg horfin og kannaðist Friðrik ekkert við að hafa nokkurn tíma séð hana. Eftir töluvert málavafstur var gerð önnur þjófaleit á Lækjamóti tæpu ári seinna. Húsfreyja tók á móti leitarmönnum með skömmum og svívirðingum og hótaði að skvetta á þá hlandi ef þeir létu heimilið ekki í friði en Friðrik bauð þeim að leita af sér allan grun enda sagði hann það ekkert óvanalegt að heiðarbúarnir væru þjófkenndir.

Leitarmenn fundu 2 tunnur troðfullar af ull og einnig ull í rúmi þeirra hjóna, 29 pör af vettlingum, 11 ½ sokkapar, 6 stóra bandhnykla og 5 minni og allmargar gærur af nýlega slátruðu fé, en kjöt fundu þeir ekkert hvernig sem þeir leituðu. Á endanum gátu þeir þó sannfært Friðrik um að betra væri fyrir hann að vera samvinnuþýður og segja til þýfisins. Benti hann þeim þá á kofa sem byggður var yfir bæjarlækinn þar sem vatnið var tekið. Þar voru grafnar niður tunnur fullar af kjöti.

Eru þessir atburðir og hjónin á Lækjamóti talin vera fyrirmynd Jóns Trausta að þeim Finni og Settu og heimilinu í Bollagörðum – í sögum hans um Höllu og heiðarbýlið – enda eru æskustöðvar hans þarna í heiðinni.