Frakkagil og Þjófaklettar

Einu sinni í fyrndinni kom frönsk dugga að landi þar sem nú er bærinn Vellir. Frakkar stigu á land og sáu margt sauðfé á nesinu en engan bæ. Tóku þeir að smala saman fénu og hugðust stela því og nota sér til matar. Meðan þeir voru að ná fénu saman varð smali frá Sævarlandi var við þá. Hljóp hann heim og sagði tíðindin. Var þegar smalað saman hóp manna og talið er að presturinn á Svalbarði og húskarlar hans hafi farið þar fremstir í flokki. Koma þeir að Frökkunum í fjörunni þar sem þeir eru að binda féð. Þistlar réðust þegar í stað að þeim með bareflum og yfirbuguðu þá fljótt.

Leystu Þistlar fé sitt en bundu Frakkana í staðinn. Nú þurfti að ákveða hvað gera skyldi við sauðaþjófana. Skotið var á fundi og að endingu var fallist á að best væri að hengja þá alla. Var farið með þá í böndum upp í gil sem síðan heitir Frakkagil. Þangað var flutt stórt tré, neðan frá sjó og lagt á milli tveggja kletta. Á þessu tré voru síðan allir skipsverjar hengdir og heita þeir síðan Þjófaklettar.