Fossdraugurinn

Á Fossi bjó, um 1860, bóndi sem hét Bjarni Pétursson. Á Fossi, eins og víða á heiðarbýlunum, var innangengt úr bæjardyrunum og inn í hlöðuna svo ekki þyrfti að fara út til að gefa. Sagt var að draugur hefði fylgt konu hans en faðir Bjarna, Pétur, hefði hlaðið upp í hlöðudyrnar og komið draugnum þar fyrir. Eftir það bar ekki á draugnum fyrr en árið 1872. Þá bjó á Fossi bóndi sem Ólafur hét.

Þurfti hann að vera mikið að heiman þennan vetur og reif úr hlöðudyrunum svo börn hans gætu gengið þar um og gefið fénu án þess að þurfa að fara út. Eftir þetta varð engum almennilega vært á Fossi, draugurinn reið húsum, skellti hurðum og henti taðkögglum. Þegar leið á fór hann einnig að drepa skepnur. Eftir að Ólafur fór frá Fossi flutti þangað ungur maður en draugurinn gerði honum lífið svo leitt að hann gafst upp tveimur árum seinna og flúði frá Fossi. Síðan voru húsin rifin og jörðin lagðist í eyði. Enn er talið reimt á Fossi og ferðamenn sem velja sér þar áningarstað mega eiga á ýmsu von.

Dæmi eru um að menn hafi sofnað þar og orðið hafi að vekja þá því i þeim hafi korrað og þeir virst vera að kafna í svefninum. Sömuleiðis hafa hross snöggveikst tilefnislaust við bæjarrústirnar, en ekki vitað til þess að draugurinn hafi neinn drepið í seinni tíð.