Fagranes

Á árunum kringum 1860 bjuggu í Fagranesi ung hjón, Anna og Halldór, með börn sín. Anna þessi var orðlögð fyrir dugnað og myndarskap en maður hennar var talinn hálfgerð liðleskja og enginn búmaður.

Eitt sumarið fór Anna að venju með ullina í kaupstað, en nú stóð svo á að hún var með nokkurra vikna gamalt barn á brjósti og þurfti því að taka það með. Ullin var sett á eina hest heimilisins og hvítvoðungurinn vafinn í gæruskinn og bundinn ofan í milli klyfjanna. Sjálf gekk Anna og teymdi hestinn sem leið lá til Raufarhafnar. Ferðalagið hefur líklega tekið hana u.þ.b. viku og segir ekki nánar af því fyrr en hún kemur að Hafurstöðum að áliðnum degi, á heimleið. Þaðan lagði hún af stað heim undir háttatíma í góðu veðri, en um miðnættið skall á þreifandi þoka. Anna hélt þó hiklaust áfram og rakti sig eftir götuslóðunum.

En í eitt skiptið sem hún lítur við til að athuga með barnið er það horfið. Hafði þá bandið losnað og barnið oltið af hestinum án þess að hún yrði þess vör. Þarna stóð hún ein, í svarta þoku, um miðja nótt og búin að týna barninu sínu. Fyrsta hugsunin var að hlaupa af stað til baka og reyna að finna það, en þá var það hesturinn – ekki mátti hún missa hann út í þokuna með alla björg heimilisins á bakinu. Hún snaraði því klyfjunum af hestinum og hefti hann í graslaut við götuna og hljóp svo af stað í von um að finna barnið í förunum sínum. En hvergi fann hún barnið og ekkert heyrðist til þess.

Taldi hún því nánast víst að það myndi hafa rotast í fallinu. Loks var hún komin svo langt til baka að hún sá að hún hlaut að vera farin framhjá þeim stað sem barnið hefði dottið. Sneri hún þá við og var búin að gefa upp alla von. En á bakaleiðinni rakst hún af tilviljun á barnið. Hafði það oltið ofan í gjótu við götuslóðann og var þar steinsofandi innan í gæruskinninu.